Þriðji dagur N1 mótsins hafinn - helstu punktar

Þá er þriðji dagur N1 mótsins hafinn og spennan í algleymingi. Það eru nokkrir punktar sem við viljum minna á til að allt haldi áfram að ganga vel fyrir sig.

Við minnum á að yfirfara leikjaplanið vel í dag og á morgun eftir smá tilfærslur á nokkrum leikjum í gær.

Í kvöld klukkan 20:30 er mögnuð kvöldskemmtun í íþróttahöllinni (stóra íþróttahúsið sem er við sundlaugina) þar sem ClubDub spilar, mótsmyndbandið er sýnt og ýmislegt fleira en Siggi Gunnars mun stýra dagskrá.

Ætlast er til að einn liðsstjóri fylgi hverju liði á kvöldskemmtunina og mikilvægt að við brýnum fyrir strákunum að haga sér vel. Nokkur félög verða verðlaunuð á skemmtuninni og mikilvægt að við klöppum fyrir þeim og sýnum þeim virðingu.

Úrslitakeppni N1 mótsins hefst klukkan 12:00 í dag og þá breytast leikar og verður ekki lengur hægt að gera jafntefli. Ef staðan er jöfn að leiktíma loknum verður farið í vítaspyrnukeppni þar sem bæði lið taka þrjár vítaspyrnur og ef enn er jafnt að því loknu tekur við bráðabani.

Þá minnum við á að KA-TV á YouTube sýnir alla leiki á velli 4 beint og er afar mikilvægt að liðin komi með nafnalista leikmanna ásamt númerum til strákanna fyrir leik svo þeir geti lýst leikjunum með nöfnum strákanna.

Áfram fara liðin í Sambíó eftir bíóplaninu og ítrekum við að það getur verið knappt milli sýninga og leikja þannig að við þurfum að vera snögg að skjótast með strákana milli svæða ef svo ber á.

Að lokum þá brýnum við fyrir ykkur að láta þau í matsalnum vita ef þið hyggist ekki nýta ykkur einhverja máltíð í dag eða á morgun.



Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  saevar@ka.is